29. október 2012

Fjólublá Fiðrildaslóð

Þá er ég loksins búin að klára Fiðrildaslóðina sem ein frænka mín pantaði sér í afmælisgjöf... er með svo mörg önnur verkefni í takinu að það er fínt að grynnka aðeins á þeim áður en ég byrja á einhverju öðru :)

Fiðrildaslóð
 
Fjólublá Fiðrildaslóð

Fiðrildaslóð - hér sjást fiðrildin betur

Ég er mjög ánægð með peysuna og er viss um að frænka mín verður ánægð enda valdi hún litinn á peysuna. Það var reyndar svolítið leiðinlegt að sauma búkana á fiðrildin og ég hefði kannski átt að nota dekkri lit í staðinn fyrir silfurglitþráðinn í búkinn á fjólubláu fiðrildunum... því að mér finnst hann ekki sjást nógu vel :)

Garn: Létt-lopi
Prjónar: 3,5 mm og 4,5 mm
Heklunál: 3,5 mm
Uppskrift: Fiðrildaslóð - Lopi 27

12. október 2012

Heklað bindi - Bleiki dagurinn 2012

Eginmaðurinn minn sagði mér í gærkvöldi að hann ætti víst að mæta í einhverju bleiku í vinnuna en hann ætti ekkert bleikt... ég sagði auðvitað mætir þú í einhverju bleiku... ég hekla bara bindi!

Ég þurfti að spýta aðeins í lófana til að ná að hespa þessu af með þessum litla fyrirvara þannig að það var setið stíft við í gærkvöldi.

Ég byrjaði bara neðan frá og jók út í báða endana þar til það var orðið nógu breitt. Heklaði hálfstuðla og svo var tekið úr í miðjunni. Heklaði krabbahekl meðfram spíssinum. Hér er svo afraksturinn:

Heklað bleikt bindi - Bleiki dagurinn 2012

GLEÐILEGAN BLEIKAN DAG

Garn: Trysil Tuva
Heklunál: 3,5 mm
Uppskrift: engin